Við notum smákökur til að veita góða þjónustu.Með því að nota þessa síðu þú þarf að samþykkja að þær verða niðurhlaðnar á þína tölvu. Þú getur alltaf breytt þínar vafrastillingar.Einnig, með því að nota þess síðu þarf þú að samþykkja persónuverndarlög.
Back

ESB stendur með Úkraínu - Sameiginleg grein í Morgunblaðinu

24.02.2024

ESB stendur með Úkraínu er sameiginleg grein skrifuð af sendiherra Evrópusambandsins, sendiherrum aðildarríkja ESB, og staðgengil sendiherra Spánar. Greinin var birt í Morgunblaðinu þann 24 febrúar 2024 í ljósi tveggja ára af allsherjar innrás Rússlands í Úkraínu.

ESB stendur með Úkraínu

Á þessum degi, fyrir tveimur árum, vaknaði fólk um alla Úkraínu upp við martröð þegar Rússar hófu tilefnislausa, óréttlætanlega og ófyrirleitna innrás sína í landið. Allar götur síðan hefur stríðið valdið gríðarlegu manntjóni, ólýsanlegum þjáningum og eyðileggingu heimila og heilu borganna. Innrás Rússa í Úkraínu hófst í raun fyrir áratug í Donbas og á Krímskaga. Það leikur enginn vafi á því að grimmilegt stríð Rússa gegn íbúum Úkraínu er stórfellt brot á alþjóðalögum og sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alvarleg ógn við öryggi og stöðugleika í Evrópu.

Eftir tveggja ára hetjulega vörn stendur Úkraína nú á tímamótum. Fregnirnar um að Rússar hafi náð yfirráðum yfir borginni Avdiivka gefa tilefni til að rifja upp um hvað stríðið snýst. Jú, Úkraínumenn berjast fyrir frelsi og tilveru landsins en þetta stríð snýst einnig um heiminn sem við öll viljum búa í. Pútín ræðst gegn gildum okkar og lýðræðiskerfi, alþjóðlegu og marghliða kerfi sem byggir á réttarríkinu og friðsamlegri samvinnu. Úkraína berst fyrir okkur öll og því er „Úkraínuþreyta“ ekki í boði. Við verðum að halda áfram að veita Úkraínumönnum nauðsynlega aðstoð eins lengi og þörf krefur. Við getum ekki látið heimssýn Pútíns ná yfirhöndinni. Enginn er óhultur í heimi þar sem það líðst að beita ólögmætu ofbeldi.

Staðfastur stuðningur við Úkraínu

Evrópusambandið og 27 aðildarríki þess hafa staðið þétt við bakið á Úkraínu allan þennan tíma og hvergi hvikað í stuðningi sínum við varnir, sjálfstæði og lýðræði landsins. Til þessa hefur ESB veitt Úkraínu mannúðaraðstoð og fjárhagslegan, efnahagslegan og hernaðarlegan stuðning sem nemur rúmum 88 milljörðum evra, eða 13 þúsundum milljarða íslenskra króna. Við höfum útvegað neyðarskýli og heilsugæslu, matvælaaðstoð, menntun, vatn og hreinlætisaðstöðu. Aðildarríki okkar hafa tekið á móti úkraínskum flóttamönnum og veitt meira en 4 milljónum þeirra tímabundna vernd. Hernaðarlegur stuðningur okkar til þessa nemur rúmum 28 milljörðum evra. Við höfum þjálfað yfir 60.000 úkraínska hermenn og sent mikið magn hergagna sem hafa skipt sköpum á vígvellinum.

ESB hefur einnig samþykkt þrettán öfluga refsiaðgerðapakka gegn Rússlandi til þess að draga úr getu Rússu til að halda grimmilegri stríðsvél sinni gangandi og einangra og takmarka efnahag landsins. Þessar þvinganir hafa borið árangur og við höldum áfram að auka skilvirkni þeirra.

Ísland hefur verið náinn samstarfsaðili í öllu þessu starfi. Við kunnum að meta þann öfluga stuðning sem Íslendingar hafa sýnt úkraínsku þjóðinni, hvort sem það er með refsiaðgerðum, fjárhags- og mannúðaraðstoð, læknisaðstoð eða hreinsun jarðsprengna. Ísland hefur einnig, líkt og aðildarríki Evrópusambandsins, tekið hlýlega á móti þúsundum úkraínskra flóttamanna sem hafa leitað skjóls undan hryllingi innrásarstríðs Rússa.

Ábyrgð

Kalla verður rússnesk stjórnvöld og ráðamenn til fullrar ábyrgðar á skelfilegum stríðsglæpum sínum, mannfalli og gríðarlegu tjóni sem hlotist hefur af þessari hrottalegu innrás. ESB leggur ríka áherslu á að tryggja réttláta refsingu fyrir glæpi gegn Úkraínu og úkraínsku þjóðinni. Við erum afar þakklát fyrir mikilvægan þátt Íslands í stofnun tjónaskrár Evrópuráðsins um innrás Rússa, sem er fyrsta skrefið í átt að alþjóðlegu bótakerfi fyrir úkraínsk fórnarlömb stríðsins. Íslendingar hafa svo sannarlega sýnt í verki hversu annt þeim er um sameiginleg gildi og grundvallarreglur okkar. Fjórtán aðildarríki ESB hafa þegar hafið rannsóknir á alþjóðlegum glæpum sem framdir hafa verið í Úkraínu og nokkur aðildarríki hafa stutt stofnun alþjóðlegrar miðstöðvar um stríðsglæpi gegn Úkraínumönnum í því skyni að rannsaka árásárstríð Rússa og safna gögnum fyrir réttarhöld í framtíðinni. Greint hefur verið frá því að yfir 19.000 úkraínskum börnum hafi verið rænt og þau flutt til Rússlands og Belarús. Þetta eru alvarlegir stríðsglæpir og þeir sem bera ábyrgð á þeim verða að sæta ábyrgð. Það er einmitt þess vegna sem Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn hefur gefið út handtökuskipun á hendur Vladimír Pútín. ESB hyggst styðja dómstólinn þar til réttlætinu er fullnægt.

Við ætlum að halda áfram að styðja úkraínsku þjóðina eins lengi og þörf krefur, þar til Úkraína vinnur fullnaðarsigur.

Undirritað af,

Lucie Samcová - Hall Allen, Sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi

Kirsten Geelan, Sendiherra Danmerkur

Anu Laamanen, Sendiherra Svíþjóðar

Guillaume Bazar, Sendiherra Frakklands

Clarissa Duvigneau, Sendiherra Þýskalands

Gerard Pokruszyński, Sendiherra Póllands

Pär Ahlberger, Sendiherra Svíþjóðar

José Carlos Esteso Lema, Staðgengill sendiherra Spánar

 

Þessi grein var birt í Morgunblaðinu þann 24.02.2024

Myndir (1)

{"register":{"columns":[]}}